Tuesday, September 14, 2004

Perla

Ég hef áður skrifað um hundinn minn hana Perlu.. Ég sagði frá því þegar hún stökk bæði hálfblind og gigtveik fram af kletti í Heiðmörk til að ná í önd sem var á svamli í vatninu fyrir neðan.. Þá nennti ég reyndar ekki að segja ykkur hvað gerðist eftir það en það fór allt vel miðað við aðstæður. Hún auðvitað sá ekkert hvar hún var og synti í hringi í nokkrar mínútur þar til við Jens komum og öskruðum, flautuðum og klöppuðum (hún er hálfheyrnarlaus orðin líka greyið) í átt að henni svo hún áttaði sig á hvert hún ætti að fara og að lokum kom hún til okkar og uppúr.. frekar ánægð með dagsverkið.
Perla er 13 ára og er vön því að koma sér í ýmis vandræði. Þegar hún var nokkurra mánaða hvolpur var hún að fylgjast með okkur, mér og frændsystkinum mínum, æfa okkur (í óleyfi að sjálfsögðu) í því að kasta með veiðistöng þar sem við vorum í sumarbústað á vestfjörðum. Á enda línunnar var ógnvænlegur spúnn með 3 göddum. Þegar eitt okkar var í miðju kasti stekkur Perla skyndilega upp og gleypir spúninn. Hún kyngdi honum og þetta var sko ekkert grín því hann stakkst allur í litla hvolpahálsinn hennar og ég held að ég hafi grenjað stanslaust í heilt kvöld á meðan pabbi var með hana hjá dýralækni. Þarna var ég 6 ára. Henni var ekki meint af þessu þó hún hafi þurft að vera á sterkum verkjalyfjum og fljótandi fæði í vikur.
Hún Perla er traustur hundur og svaf alltaf uppí hjá mér á nóttunni undantekningarlaust þar til ég eignaðist minn fyrsta kærasta (blessuð sé minning þess fífls) og enn þann dag í dag urrar hún hræðilega á Jens og geltir stundum þegar hann knúsar mig eða kyssir í hennar návist svo afbrýðissöm er hún. Hún hefur alltaf skynjað það þegar mér líður illa og kemur þá og kúrir hjá mér og hlustar stórum augum á öll mín vandamál. Hún kom oft með mér á fótboltaæfingar og sat þá bara og beið þar til ég var búin og trillaði svo með mér aftur heim. Einu sinni var ég tækluð svo illa á vellinum að ég lagðist á grúfu og var e-ð að stynja þar (leikaraskapur hvað??) og næsta sem ég veit er að Perla kemur á fullum hraða urrandi og geltandi með skínandi vígtennur og læti og stekkur á stelpuna sem tæklaði mig og býst til þess að rífa hana í sig. Stelpunni bregður og hún dettur og er haldið í gíslingu af Perlu þar til að húsbóndinn (ég) stend upp og róa þennan litla lífvörð minn niður. Þetta var í fyrsta skipti sem ég sá Perlu svona reiða því hún er svona hundur sem leyfir litlum krökkum að draga sig um á eyrunum og þvíumlíkt sem litlu systur mínar stunduðu. En a dog´s gotta do what a dog´s gotta do.. Það versta sem Perla lenti í var samt sumarið 2000 að mig minnnir þegar við öll stórfjölskyldan vorum að veiða í Blöndu. Þeir sem hafa séð hylina í þeirri á vita hversu óhugnaleg hún getur verið með sína háu kletta og hvítfyssandi strauminn. Perla var semsagt með okkur eins og vanalega í þessari veiði og var bara að vagga um á bökkunum með hinum gamalmennunum í fjölskyldunni. Þá var hún komin með mikla gigt. Allt í einu tekur hún eftir því að pabbi er kominn yfir á hinn bakkann að veiða. Hún fer fram á brúnina til þess að skoða málið og við vitum ekki alveg hvað gerðist annað en það að allt í einu er hún komin ofaní hvínandi hringstrauminn í hylnum fyrir neðan að berjast fyrir lífi sínu. Við fengum öll áfall og hlupum um bakkana og vissum ekkert hvað við áttum að gera því 5 metra hnífbrattir klettar voru fyrir ofan ánna. Perla synti og synti en ekkert gekk og að lokum fór hún að fara meira og meira ofan í vatnið og það var vægast sagt hræðilegt að horfa upp á hundinn sinn bókstaflega að drukkna fyrir framan sig, ylfrandi og fnæsandi og geta ekkert gert. Að lokum ákvað ég að ég gæti þetta ekki ég færi ofaní en var stöðvuð því auðvitað hefði ég bara farið að fljóta þarna um líka. Allir voru farnir að öskra á hvern annan og enginn vissi hvað væri hægt að gera. Þá var hún farin að fljóta í hringi þarna í hylnum og kom ekkert lengur upp til að anda. Þá fékk pabbi nóg og náði í veiðistöng. Hann klifraði eins nálægt og mögulegt var og kastaði þá spúninum yfir Perlu svo hann kræktist í bakinu á henni. Þá var hún orðin alveg meðvitundarlaus þannig að það kom ekki að sök. Hann reyndi að mjaka henni út úr straumnum og það tókst eftir 2 tilraunir og hundurinn okkar sökk ofaní ána og fór niður með henni. En pabbi hafði skipulagt þetta og á hinum bakkanum var vinur pabba og veiðifélagi komin á harðasprett niður eftir ánni. Svona km neðar stökk hann svo niður í ánna og festi sig með því að setja háf (notaður til að ná upp fiskum) á klett í ánni. Svo greip hann Perlu í annan háf þegar hún flaut framhjá. Hinir kallarnir í fjölskyldunni komu til aðstoðar og brátt voru bæði hetjan og Perla komin upp á bakkann. Fyrst lá hún bara þarna alveg í 2 mínútur og ég man ég fann vonleysið stinga mig í hjartað.. svo allt í einu fór hún að hósta upp úr sér vatni og það engu smá og þeegar ég var loksins komin yfir á hinn bakkann (það tók korter að keyra þangað og það var eina leiðin) var hún orðin stálhress. Hún er ótrúleg hún Perla og mér þykir svo vænt um hana og allt hennar vesen.

Í síðustu viku sagði dýralæknirinn okkur að það væri kannski best að fara að svæfa hana bráðlega því hún er nú orðin gömul og veik. Ég trúi ekki að það sé að fara a gerast og finnst það óendanlega leiðinlegt.

5 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Þar sem ég er nú búin að þekkja Perlu í svolítinn tíma þá verð ég að segja að þetta er einn hraustasti hundur sem ég hef hitt ... og það að hún sé kannski að fara er algerlega óhugsandi! Hún er og hefur alltaf verið hjá ykkur og kom stundum inn til okkar til að kæla sig á okkar unaðslega fallegu flísum.
Þetta er ótrúlega skrítin tilhugsun ... Perla er algjör dúlla og eftir að þið fluttuð kom hún oft aftur í Ásbúðina og beið fyrir utan hurðina hjá Auði lol
Mér þykir þetta hræðilegt ... greyið auðvitað búin að vera mikið lasin ... en þetta er Perla. Hún fylgir ykkur ... þá sérstaklega þér :)
það verður ekkert smá skrítið þegar hún fer. Er samt orðin 13 ára sem er nú assgoti gott. Búin að gera fullt af skandölum og með því . . so to speak! Fer í störu- og styttukeppni við ketti hjá læknum (ekki samt lækna læknum, heldur svona með vatni í), kúkar á "eyjur" við miklar umferðargötur, dettur ofan í ár og vötn og gerði fótspor í planið heima! :)
Það verður nú varla mikið betra . . . ótrúlega skemmtilegur hundur :)

-Elín <:')

2:12 AM  
Anonymous Anonymous said...

Áhugavert dýr sem þú hefur þarna. Ég átti einu sinni hvolp. Hann var sendur útí sveit og síðan var keyrt yfir hann, þ.a. þú hefur fulla samúð mína. Knúsaðu hundinn þinn frá mér.
-Skúli

10:24 AM  
Blogger Egill said...

þetta var mjög skemmtileg frásögn.. þú hefur aldrei sagt mér þessar sögur!
annars finnst mér þetta fúlt.. trúi því hversu ömurlegt þetta hlýtur að vera fyrir þig :(

12:37 AM  
Blogger Sigridur said...

ææiii ömurlegt að heyra þetta, að þurfa að láta lóga hundinum sínum er ekki auðvelt, getur bara reynt að hugsa um að þá þarf henni ekki að líða neitt illa.

Hvenær kemuru annars aftur í heimsókn í bankann????

Kv. Sigga

1:24 PM  
Blogger Þorbjörg said...

Æi... Greyið Prela... Hún er svo mikil dúlla.. :( Ég samhryggist alveg innilega, en hún er nú búin að eiga mjög gott líf, þú getur huggað þig við það!! :/
Þú verður að knúsa hana frá mér!!
Million knuses!!
Þorbjörg!!

8:10 PM  

Post a Comment

<< Home