Thursday, April 06, 2006

Í gær í Kastljósi eða einhverjum öðrum ofurbroskvöldþætti var farið í heimsókn til manns sem er mikill veiðimaður og farið um allan heim með byssuna sína. Hann hefur svo látið stoppa dýrin upp og opnað safn á heimili sínu sem var einmitt sýnt í þættinum. Í því eru alls konar dýr allt frá litlum öpum og fuglum upp í gíraffa og ísbirni sem stara svörtum gleraugum á stofuhúsgögnin.
Image hosting by Photobucket
Þessi maður virkaði nú á mig sem vænsti kall og hann talaði mikið um það að hann leggði áherslu á mannúðar(dýrúðar?)sjónarmið og mjög sjaldan kæmi fyrir að hann þyrfti að skjóta dýrið tvisvar. Frábært. Af hverju ekki bara sleppa því að skjóta og taka mynd í staðinn. Hann sagði einnig frá því að í sumum tilfellum væri þetta hrein og bein grisjun eins og með gíraffann. Það grey var víst orðið eldgamalt, slapt, aleitt og einmana og í raun greiði gerður með skammbyssuskotinu (já rifflar eru víst á leið út í skotveiðisportinu).

Eftirsókn eftir dýrum á veggi eða í annað getur verið hættuleg. Eftirsókn þýðir peninga og peningar þýða oft óprúttna aðila sem svífast einskis til að eignast þá. Sjá t.d. eins og með fílabein. Ef engin eftirsókn væri eftir því þá væri mun minni misþyrming á fílum þar sem tennurnar eru skornar úr þeim og þeir skildir eftir til að deyja. Það er víst vinsælt núna hjá ríka fólkinu að kaupa uppstoppaða hvítháfa frá S-Afríku sem seldir eru á svörtum markaði fyrir morðfjár en þeir eru í bráðri útrýmingarhættu og hætta er að fjöldi þeirra minnki enn meira ef eftirsókn eftir þeim linnir ekki. Það er margt annað sem maður skilur ekki en snýr einmitt að þessu eins og með það að í sumum asíulöndum þykja apaheilar, étnir beint úr höfuðkúpum lifandi apa, algjört lostæti og gallblöðrur úr björnum eiga einnig að hafa mjög heilsubætandi áhrif og því skornar úr þeim og þeir skildir eftir í sárum. Því eru þessi dýr mjög eftirsóknarverð og stórir smyglhringir sem snúast um að koma vesalings dýrunum hingað og þangað. Eru mörg samtök í því að reyna að koma í veg fyrir þessa og aðra misþyrmingu á öpum og fleiri dýrum starfandi í Asíu. Ég sá einmitt þátt á Animal Planet þar sem fullur gámur af ólöglega innfluttum öpum og björnum var stöðvaður á leið sinni á veitingastað í Víetnam þar sem beið þeirra ekkert gott. Svona er þetta með fleiri dýr en nú er ég komin í önnur mál sem fylla hjarta mitt svo mikilli reiði að ég get ekki hamið mig.

En aftur að veiðimanninum og safninu hans. Ég skil þetta ekki. Að geta þetta í fyrsta lagi. Skotið dýr eins og apa, antilópur eða hvað annað ekki til annars en að láta það hanga á veggjunum heima hjá sér. Fyrsta tilhugsun veiðimanna eins og hans við að sjá fallegt dýr er kannski hversu gaman væri að skjóta það. Nei ég veit það ekki.. þessir veiðimenn bera líklegast flestir mikla virðingu fyrir náttúrunni en ég gæti þetta ekki. Ég fengi samviskubit og sálarkvöl við að drepa dýr og hvað þá að hengja hræið fyrir ofan arininn minn til sýnis.

Ég held að fólk verði að fara að átta sig á því að dýr lifa á þessari jörð eins og við og við eigum þau ekki og höfum ekki rétt til að drepa þau eða fanga í engum tilgangi. Það á ekki að þykja spennandi að hafa þau hangandi dauð upp á vegg. Það á að þykja truflandi og óviðeigandi annars staðar en í náttúrusöfnum. Mér finnst líka illgjarnt að fanga dýr og geyma í búrum í dýragörðum sem ekki hafa svokallaða þjóðgarðastefnu. Fólk á að kynnast dýrum í sínu náttúrulega umhverfi en ekki lokuðum inni á allt of litlu svæði.

Viðhorf fólks og hegðun í garð dýra verður að breytast.
Image hosting by Photobucket

2 Comments:

Blogger This is all you have to know said...

Ekkert við þetta að bæta, ég er alveg sammála þér.. helvítis!!!


<:(

12:30 AM  
Anonymous Anonymous said...

Fólk er fífl og fífl deyja.

8:54 AM  

Post a Comment

<< Home