Monday, October 31, 2005

Skyr

Tíminn líður svo hratt. Prófin nálgast með ofurhraða og mér finnst eins og skólinn hafi byrjað í síðustu viku. Það er farið að styttast í Harry Potter myndina, jólin og auðvitað hina miklu reisu í febrúarbyrjun. Ég vona að tíminn haldi sama hraða í gegnum prófatörnina... ágætt.

Það er fullt búið að gerast hjá mér síðustu daga og vikur. Ég er t.d. að reyna að vera dugleg í skólanum svo ég fái ekki magasár enn ein jólin. Það gengur ágætlega og skaðabótarétturinn er alls ekki leiðinlegur... svo er ég búin að vera í endalausu partýstandi og veseni hverja helgi, hvert kvöld, sem ég vona að fari nú bráðlega að taka enda áður en lifrin í mér verður fyrri til.

Sonur minn hann Ciceró er mjög reiður út í mig í augnablikinu því ég fór með hann til dýralæknis og hélt honum meðan hann var sprautaður með nál sem var jafnbreiður og fóturinn á honum. Ég skil þetta ekki.. eru ekki til minni nálar til að nota á svona lítil dýr? Þetta var hræðilegt og hann æpti og veinaði allan tímann á meðan ég hélt honum og því er ég nú hin illa móðir sem kvelur son sinn sér til yndisauka á meðan Jens er æðislegi pabbinn sem gefur honum spínat og epli. Svei.

Ég hef undanfarið stundað pókerleik með samVökufélögum mínum og hef ekkert annað um það að segja en að ég hljóti að vera mjög heppin í ástum.
Ég gær setti ég síðan heimsmet í húsmóðursæðislegheitum með því að föndra jólakort sem ég ætla að senda ykkur grunlausum vinum mínum og fjölskyldu. Um það er heldur ekkert sérstakt að segja annað en að ég ætla ekki að hætta lögfræðinámi og gerast föndurkona. Undirbúið ykkur fyrir ógnvekjandi lím-glimmer-klumpa með jólakveðjum úr Blásölum. :)

Ding dong dei.

Thursday, October 20, 2005

Æ hvað lífið er nú gott..

Image hosted by Photobucket.com

Tuesday, October 04, 2005

Ég er komin heim.. :)

Þetta var æðislegt. Of mikið ævintýri til þess að ég geti skrifað um það hér. Áhugasamir eru velkomnir í te, halva, vatnspípu og myndir.
Ég var klukkuð eins og flestir aðrir bloggheimsbúar og ætla því að segja ykkur 5 áður óþekktar staðreyndir um sjálfa mig.

1. Mér finnst flugvélamatur góður. Það er eitthvað við hann sem lætur mér finnast slímugustu eggjakökur gómsætar.

2. Ég hata raðir meira en margt annað. Sérstaklega þegar þær eru óskipulagðar og margir að reyna að troðast fram fyrir með góðum árangri. Ég þoli það ekki og fæ gæsahúð af bræði bara við að skrifa þetta. Vegna þessa leið mér ekki vel á flugvellinum í Íran þar sem ekkert annað en handalögmál giltu í "röðunum" og ef þú veifaðir rétta fólkinu (systursyni ömmu frænda vinar þíns) þá fórstu eins og ekkert væri framhjá 2klst "röð" í vegabréfsskoðun í 40gráðu hita. Já ég er enn örlítið æst yfir þessu.

3. Ég stend sjálfa mig oft að því að vorkenna dýrum meira en fólki í bíómyndum. Ég er almennt viðkvæm fyrir dýrum og hika ekki við að skipta mér af ef mér finnst hegðun eiganda ekki vera dýrinu til hagsbóta. Einu sinni eftir augljóst athæfi lamdi ég mann í höfuðið með dagblaði og spurði hann hvernig honum líkaði það.

4. Ég er rómantísk dramadrottning og tónlist og lýsing hefur mikil áhrif á mig. Ég starfa best við mikla notkun tónlistar og lítillar notkunar ljóss (helst aðeins kerti). Ég hef þjálfað augun til þess að lesa við minnstu ljósglætu sem hlýtur að vera glákuvaldandi. Mér finnst æðislegt að búa til dramatískar aðstæður með tónlist og lýsingu í takt við tilefni. Tónlist hefur það mikil áhrif á mig að get grátið upp úr þurru ef hún er sorgleg.

5. Það má segja að ég sé hrædd við dauðann því ég er logandi hrædd við að missa þá sem mér þykir vænt um eins og fjölskyldu og vini og ég hugsa oft um það. Sennilega of oft. Ég held þetta sé að hluta til vegna nokkurra ótímabærra andláta í fjölskyldunni síðustu ár. Ég verð að passa mig að lifa ekki í hræðslu við að missa því þá missi ég af svo mörgu öðru.

Jæja þá er þetta komið og ég klukka stórvini mína þau Þorbjörgu og Gunnar.
Við Jensi ætlum svo að vera með örlítið teiti um þarnæstu helgi svo takið hana frá! :)