Friday, November 26, 2004

Hrakfarir á snjóbretti

Egill á heima í vesturbænum.. á Ásvallagötunni í gulu húsi..

Ég hef alltaf verið frekar hrædd við það að yfirgefa öryggi stólalyftunnar því ég hef verið mjög óheppin við þær aðstæður! Einu sinni þegar ég var að byrja á bretti ætlaði ég að vera geðveikt æðisleg og renna mér fallega úr stólnum og í augnablik virtist það vera að takast þar til að ég tókst skyndilega aftur á loft og sveif áfram með stólalyftunni góðu.. þá hafði ég semsagt fest úlpuna í stólnum og þurfti því að hanga þarna í ríflega korter á meðan að fjallageiturnar sem vinna þarna stöðvuðu lyftuna og voru að reyna að ná mér niður og allir hlógu að mér eins og ég væri Bob Saget. Þetta var hræðilega neyðarlegt og þá sérstaklega þar sem ég var í tíunda bekk og þar að auki mjög hrifin af gaurnum sem var með mér á bretti þann dag og hann hló manna mest. Ég hef án efa litið undarlega út svona hangandi eins og tuska úr stólalyftunni alveg að kafna á hálsmálinu á úlpunni minni, með magann beran, slefandi (út af hálsmálskyrkingunni) og kvartandi með brettið danglandi á löppinni..
Á endanum tókst þeim að ná mér niður með því að klippa hettuna af úlpunni og ég var free at last eftir lengsta korter veraldar.. þá fannst fólki ég ekkert fyndin lengur heldur bara sorgleg.. samband okkar brettamanns þróaðist ekki frekar en ég verð ennþá svolítið stressuð þegar ég yfirgef stólinn ;)

Versta og neyðarlegasta atvikið var samt í fyrra þegar ég var talin bara nokkuð góð á bretti og var að hjálpa einhverju barni í barnalyftunni í Bláfjöllum en tókst á einhvern hátt að detta um sjálfa mig ofarlega í BARNAlyftunni og ég rann aftur á bak og sópaði með mér um tuttugu krökkum... Það er á svona stundum sem maður slær sjálfan sig utanundir.. :/

Eitt af því skemmtilegasta sem ég hef lent í á brettinu var þegar ég var á Akureyri og sveif um brekkurnar með vasadiskóið á fullu og var ekkert að spá í því hvert ég var að fara. Allt í einu hrynur jörðin/snjórinn undan fótum/bretti mér og ég fell niður örugglega 5 metra.. í kafi í lausasnjó og staurblind í sjokki hélt ég samt jafnvægi í nokkur andartök þegar ég hryn aftur niður nokkra metra.. þá rúllaði ég í marga hringi og endaði með snjó á stöðum sem ég vissi ekki einusinni að væru til á mér! Ég hafði semsagt óvart rambað inn á Hengjusvæðið í Hlíðarfjalli sem allt bretta-og skíðafólk fyrir norðan hlýtur að þekkja..
Þetta var alveg geðveikt gaman en ég hefði aldrei þorað þessu ef ég hefði ekki óvart farið í hugsunarleysi mínu!

Svo mun ég heldur aldrei gleyma því þegar ég og Eyþór vinur okkar Ellu fórum með Elínu að kenna henni á bretti.. þetta var ári eftir úlpuatvikið. Elín dettur einhvern veginn úr stólnum þegar hún var að gera sig tilbúna fyrir að yfirgefa hann og ég og Eyþór sjáum ekki annan kost en að henda okkur á eftir henni..
Við liggjum þarna svo öll í brekkunni fyrir neðan svæðið þar sem ætlast er til að maður yfirgefi stólinn og rembumst við að koma okkur í burtu. Stólarnir þeysast framhjá hver á eftir öðrum og við erum á milli umferðar þeirra fram og tilbaka í ágætu skjóli að við héldum. Ég man ekki alveg hvað gerðist næst en á einhvern hátt stendur Eyþór upp og samstundis kemur brjálaður stóll aðvífandi og fer beint í höfuðið á honum! Þetta var algjör viðbjóður því skinnið á enninu á honum bókstaflega sprakk upp og það myndaðist skurður yfir allt ennið,húðin hékk niður fyrir augun, það sást vel í höfuðkúpuna og blóðið fossaði! Þetta var alveg rosalegt og ég og Elín vissum ekkert hvað hafði gerst. Eyþór lyppaðist niður og varð alveg eins og dópaður og heimtaði að við myndum bara halda áfram á bretti eins og ekkert hefði í skorist.. svo leið yfir hann af blóðmissi eða af höfuðhögginu. Við notuðum vettlingana okkar til að halda við sárið og Elín var svo hjá honum á meðan ég brunaði niður í skála til að fá aðstoð. Hann fór svo með sjúkrabíl á spítala og í dag er hann með mjög flott ör yfir allt ennið :)

Ég hef nú aldrei lent í neinu svona rosalegu en eins og ég var að tala um í kommentunum í gær þá var ég mikið í því að stökkva og leika mér á tímabilinu 3-4.bekkur.. þegar það var snjór á Íslandi.. og þá meiddi ég mig oft.. Versta var þegar ég ætlaði að reyna að fara svona hálfgerðan kollhnís í loftinu af palli og það mistókst og ég lenti á hálsinum.. ég hélt í alvöru að ég væri lömuð! Ég fékk svona stuð niður allan hrygginn og lá bara þarna eins og klessa þar til maður á vélsleða náði í mig.. ég tognaði svo illa að ég gat varla hreyft mig í nokkra mánuði :) Þegar ég fór síðan á bretti í Ölpunum í fyrra var þar það allra flottasta stökksvæði sem ég hef séð.. dúndrandi tónlist og æðislegar pípur, pallar og læti.. en ég þorði ekki.. fékk bara illt í bakið af að horfa á þetta.. ;)

jæja.. þetta voru hrakfarir mínar á bretti.. ég kann nú fleiri sögur en nenni ekki að skrifa meira.. Ég ætla bara rétt að vona að það fari að snjóa í fjöllinn svo ég geti farið að lenda í fleiri ævintýrum.

Monday, November 22, 2004

Einbeitingarleysi

Það er alveg ótrúlegt hvernig maður getur alltaf fundið sér eitthvað heimskulegt að spá í þegar maður er að læra! Það er eins og heilinn setji í gang svona varnarbúnað við meiri þekkingu.. þetta getur tekið mjög á taugarnar..

Kæri Heili.
Ég veit að ég hef kannski ekki komið vel fram við þig og sært blygðunarkennd þína oft og mörgum sinnum með áfengisdrykkju og FM-tónlist. Ég hef þó snúist til betri vegar að mörgu leyti og ég myndi meta það mjög mikils ef þú myndir hætta að kvelja mig með stöðugum hugsunum um ferðalög, snjóbretti og slúður á meðan ég reyni að læra og að við gætum kannski hjálpast að við að halda einbeitingu í nokkra klukkutíma í senn, Við þurfum nefninlega að ná þessu prófi 21.des næstkomandi til þess að mega læra eitthvað nýtt og skemmtilegt næsta vor! Ef ég þekki þig rétt þá viltu heldur ekki fá orð á þig fyrir heimsku og leti.. eða hvað?

með kveðju og von um góð viðbrögð,
Erna

Jæja.. vonum bara að hann taki vel í þetta kallinn :/


Ég vil líka óska Elínu *BITURLEIKI* til hamingju *grenjgrenjgrenj* með prófalokin *ARRRG* og góðs gengis með verkefnið!

Thursday, November 18, 2004

Okey mate?

Það styttist í prófin.. hjá ykkur það er. Mitt próf er ekki fyrr en um seint og síðarmeir þannig að þið verðið að vera voðalega góð og sæt við mig þegar þið eruð búin!! Mig hefur t.d. alltaf dreymt um að láta einhvern nudda á mér axlirnar og fikta í hárinu á mér á meðan ég les um lögskýringar.. Það er ekki eins og ég geri aldrei neitt fyrir ykkur krakkar!

Ég hef samt heyrt að lesendahópur þessa bloggs sé farinn að stækka á einhvern undarlegan hátt og ég á nú lesendur úr flestum minnihlutahópum.
því hef ég ákveðið að hafa tvær útgáfur af sama blogginu, sitt á hvoru tungumálinu svo að allir geti lesið! Hitt bloggið er á golfmottan2.blogspot.com



Annars þá hef ég ekki haldið mikilli einbeitingu í námi undanfarið vegna máls sem ég hef leynt ykkur í töluverðan tíma! Ég hef ekki sagt neinu ykkar frá þessu.. (ekki einu sinni Elínu) þannig að þetta ætti að koma ykkur ansi mikið á óvart! (sorry Elín).. Ég vildi bara ekki segja neitt svona in case að þetta myndi allt klúðrast og ég kannski búin að magna upp þvílíka spennu og vesen!
Þetta gæti samt að vissuleyti verið sorglegt og kannski gengur þetta bara alls ekkert upp en allar líkur benda nú til þess að þetta gangi.
En já.. kemur í ljós því ég fæ að vita allt á sunnudag eða mánudag!

Wednesday, November 10, 2004

Leynigestur

Bush vann.. bjóst samt alveg við því! það er gífurleg óánægja með þessi úrslit um allan heim og margar ástæður þar fyrir... en mér stendur allavegana ekki á sama um hversu ótrúlega heimskulegt þetta kosningakerfi þeirra er! Og ég tala nú ekki einu sinni um hvernig þessi þjóð umbreytist öll í einhverja banana þegar kemur að því að kjósa sér leiðtoga, þetta blessaða fólk í mesta lýðræðisríki landsins, týnandi atkvæðum hér og þar og skipandi heri lögfræðinga tilbúna með skjöl og penna.... svona til öryggis ef allt skyldi fara í klúður!

Ég og Elín höfum samt ákveðnar grunsemdir um hvernig á sigri Bush getur staðið...

Svo get ég ekki sofið á næturna útaf skrímslinu honum Degi Bjarnasyni! Ég fæ martraðir um þennan leynigest sem við munum hitta hjá honum á laugardaginn! Ég segi að við förum í verkfall og neitum að mæta í þennan dónagleðskap nema við fáum að vita hver þetta er! Ég er bara einfaldlega ekki byggð fyrir svona spennu skiljiði??
Það hafa strax myndast getgátur um "gestinn".. en eina vísbendingin sem við fengum var að þetta væri einhver sem væri venjulega ekki á Íslandi en þetta kvöld væri undantekning..
Egill hefur giskað á manninn sem samdi Neverending story, Jens er alveg öruggur með það að þetta sé John Kerry , sumir segja Snæbjörn og aðrir Gunni (hann var í Danmörku) en ég hef lúmskan grun um það að þetta sé bara mamma hans því hún er flugfreyja og er eiginlega aldrei á landinu.. svo hlær hann að okkur, rekur okkur burtu og segist ekki geta haldið partý af því að mamma hans sé heima!
Kannski er þetta svo bara einhver ógeðslegur ostur sem hann hefur fundið í skáp.

Ef einhver veit eitthvað meira þá látið mig vita áður en hárlosið verður meira..

Thursday, November 04, 2004

Til hamingju með afmælið Þorbjörg!

Ég þurfti að fara í svona hálfsárs skoðun hjá tannlækinum mínum í gær og var það mjög stressandi! Þið munið hvað gerðist síðast þegar ég lenti í blóðugum bardaga við tannskotann eins og ég kalla hana... það var hræðilegt! Ég semsagt fer til hennar, sest í stólinn og hálftíma seinna fæ ég reikning upp á 53.000 krónur sem að mestu leyti var skrifaður á fegurðaraðgerð!! Það kom svo í ljós að þetta átti ekki að heita "fegurðaraðgerð" heldur "dramatísk endurbygging á fyllingum því fyrri tannlæknirinn þinn er hálfviti" og þetta kostaði samt 53.000.. Gamli tannlæknirinn minn sem ég var með áður átti semsagt að hafa klúðrað málunum það illilega að það varð að skipta út öllu sem gert hafði verið nokkurntíma á minni ævi.. hmmm.. dýrt klúður það á kostnað foreldra minna! Það sem mér fannst þó merkilegast var að allt þetta.. ÖLL þessi aðgerð til bjargar niðurníddum tönnum mínum tók aðeins 25mín..
Að lokum kom í ljós að þetta var allt saman hið mesta rugl og þessi milljón króna reikningur var heildartala fyrir einhver 5 síðustu skipti hjá henni sem tengdust endajaxlatökunni miklu.
Ég var því viðbúin öllu hinu versta í gær þegar ég fór til hennar enda getur það ekki verið skynsamlegt að vera með tannlækni sem hatar þig og þú ert búin að vera að rífast við og hóta í marga mánuði.. alls ekki skynsamlegt.. Þetta bjargaðist þó alveg þrátt fyrir að hún hafi plokkað ansi harkalega í tennurnar á mér og stöku sinnum runnið með tækin og sargað aðeins í tannholdið og svona.. þetta tók ekki nema u.þ.b. 10 mínútur og ekkert fannst að tönnunum.. það fannst henni þó ekki koma í veg fyrir rukkun uppá 8500 krónur.
Guð minn góður.. það er sagt að tannlæknar séu með hæstu sjálfsmorðstíðni heims en mig grunar að þetta séu alls engin sjálfsmorð heldur hafi þeir verið myrtir af ofsafylltum og snauðum viðskiptavinum með fallegar tennur!

Þetta er alveg agalega leiðinleg og bitur færsla og því bið ég ykkur öll forláts..

Ég vil óska Þorbjörgu innilega til hamingju með afmælið sitt sem var í gær og láta hana vita að við vinir hennar erum mjög fegin þessum atburði því nú fáum við kannski loksins að vera út heilt afmæli á skemmtistað...

Wednesday, November 03, 2004

Í minningu Potta





Í minningu Pottalings.. loðinbolta, kúrukattar, letidýrs og umfram allt frábærs kisa sem ég þekkti frá fæðingu! Ég held að myndin segi allt sem þarf..

Samúð og knús til Ellu og annarra syrgjenda.