Tuesday, May 30, 2006

Update og önnur afmæliskveðja

Fyndið hvað netheimar verða fullir af lífi og stuði á prófatíma en svo steinsofnar allt um leið og prófum lýkur. Það er sama sagan hér á þessu blóki.. hef ekki minnsta áhuga á að hanga í tölvunni þessa dagana!

Annars þá er allt gott að frétta af Blásalagenginu. Nýja vinnan mín sem tollvörður er alveg frábær og ég upplifi eitthvað nýtt á hverjum degi og fæ að vesenast um allt, inn í flugvélar, einkaþotur og skip og hitta fullt af spennandi og skemmtilegu fólki (auðvitað líka leiðinlegu en hverjum er ekki sama um svoleiðis). Dagarnir líða eins og ekkert sé! Annað sem er frábært við vinnuna mína er að ég þarf að klæðast einkennisbúningi sem þýðir að ég þarf aldrei að spá í því í hverju ég á að vera á morgnana! Sumum myndi finnast þetta slæmt but I´m loving it! Ég er svona eins og Jóakim Aðalönd með fullan fataskáp af eins fötum. Ójá.

Ég verð nú samt að viðurkenna að þótt nýja vinnan sé mjög skemmtileg þá sakna ég fólksins sem ég hef verið að vinna með síðustu sumur í Landsbankanum. Það var skrýtið að koma ekki til þeirra núna í vor heldur þurfa að fara og kynnast nýju fólki á nýjum stöðum. Þetta gengur samt mjög vel og nýja fólkið (sem eru reyndar bara karlmenn = átakanlega minna slúður og kjaft) er að koma sterkt inn enn sem komið er.

Ég fékk síðan síðustu einkunnina mína í gær og get því formlega staðfest að ég hef lokið 2. ári í lögfræði stóráfallalaust. Ég held samt að þetta hafi verið metár hvað ástundun varðar eða öllu heldur skorti á henni. Þar áttu stóran þátt stúdentakosningar í janúar, Nýja sjálands- ferðalagið mikla, Spánarferð í apríl og almennt kæruleysi. Ég get þó ekki sagt að máltækið "þú uppskerð eins og þú sáir" eigi vel við þar sem mér gekk bara nokkuð vel. Lofa þó bót og betrun að vanda.

Að lokum vil ég svo óska Elínu Lóu S-Ameríkuflakkara til hamingju með afmælið í dag og senda henni stórt knúúúúúús! :)

Jæja.. ætla að drífa mig í sprikl (leikfimi) og svo á eina góða kvöldvakt!

Ding dong dei,
Tollvörðurinn

Wednesday, May 24, 2006

Afmæliskveðja

Þar sem Gunninn er ekki á landinu og ég get ekki hringt í hann þá ætla ég að skella hér inn afmælisknúskveðju!

Photobucket - Video and Image Hosting

*KNÚÚÚÚÚSS*

Til hamingju þú þarna í baunalandi :)

Wednesday, May 10, 2006

Ég elska þig Heineken!

Ég er alveg að verða vitlaus. Ekki bara á einhverjum einum hlut heldur nánast öllu.
Í fyrsta lagi er ég komin með myglubletti á viðbjóðslegu lærdómsbuxurnar mínar og með krónískan hausverk vegna stjórnsýsluvandamála (eða ostapoppsofáts). Í öðru lagi er svo stutt í próflok að ég get ekki setið kyrr við námið sem veldur því að ég þarf að sitja lengur við námið að lokum. Á morgun er svo kvöldið fyrir próf sem er ekki í uppáhaldi hjá mér. Það kvöld stunda ég að fletta hratt í gegnum námsefnið í leit að heilögum sannleik og ótrúlegum hugljómunum með hjartað á leið út úr brjóstkassanum. Í þriðja lagi er Jens að kvelja mig með því að fela afmælisgjöfina frá sér til mín efst í fataskápnum og hefur ekki fengist til að gefa neitt upp um hana nema það að hún sé keypt í Ástralíu og hún sé í 10 hlutum. Gjöfin verður afhent á föstudaginn og ég get ekki hætt að hugsa um hana. Æiiii.

Ég mundi allt í einu eftir því að þegar ég var yngri fannst mér Leonardo Dicaprio yndislegasti maður jarðar (fyrir utan prince William auðvitað). Ég býst við að fleiri hafi upplifað sömu tilfinningar í garð þessa núverandi dópfitupoka. Ég hef ekki séð Rómeó og Júlíu síðan ást mín dvínaði. Hún er stórkostleg í minningunni en er sennilega svona rétt bærileg núna.
Það var reyndar ekki mikið að marka karlasmekk minn á yngri árum og til dæmis má nefna að þegar ég var enn minni varð ég ástfangin af fertugum hótelskemmtikrafti á Mallorca sem hét Heinkel en ég hélt að héti Heineken. Ég tók þúsundir mynda af honum og foreldrar mínir höfðu miklar áhyggjur af mér. Sú ást var ekki gagnkvæm sem betur fer fyrir sakleysi mitt og framtíð. Ahhh ljúfar minningar. Allt annað með mig núna sko. Nú vel ég bara virta verkfræðinga og einstaka stjórnmálamenn.. og Jens auðvitað.

Hvað segiði.. síðasta færslan sem fjallar um próf og ostapopp í bili?

Monday, May 08, 2006

Væri ég til í að kúra í þessari hrúgu!

Photobucket - Video and Image Hosting
Ójá.. svo mjúkt og knúsulegt.

Annars verð ég að kvarta yfir því Elín hvað þú hefur verið löt við það að framleiða kettlinga undanfarið.. gengur víst verr núna þegar þú átt bara tvo högna.
Hún Nóta "ofurkrúttmús, hárbítari og hálfgelgja" Þorbjargardóttir hefur þó bjargað þessu vori fyrir hönd dýra með stuttar snoppur, lítil trýni og stór augu og ég heimta hér með að fá hana lánaða eftir prófin!

Friday, May 05, 2006

So close but yet so far...

Eftir viku verð ég að fá mér kokteil og hafa það æðislegt!
Þessi mynd lýsir vel því ástandi sem á mér mun verða:
Photobucket - Video and Image Hosting

Tuesday, May 02, 2006

Tíminn er svo skrýtið fyrirbæri..

Mér finnst hann líða alltof hægt og vera eilíflega langt í próflok en á sama tíma finnst mér ég hafa of lítinn tíma til að lesa fyrir prófið.

Ég er óvenjustressuð fyrir þessi próf. Sennilega vegna þess að ég er nánast að frumlesa allt efnið og þetta var meira en ég hélt.. en það hefur nú gerst áður í mínu námi *hóst* og það án þess að stressa frumu.

Hvað er maður samt í alvöru að hafa áhyggjur af prófum. Ég býst við að mikið af ungu fólki um allan heim myndu gjarnan vilja þær áhyggjur. Fá að mennta sig.

Það er hægt að hafa áhyggjur af svo alvarlegum hlutum. Hjón sem ég kannast við sitja í þessum skrifuðu orðum við sjúkrabeð dóttur sinnar sem er með lífshættulegan sjúkdóm. Og ég er með hnút í maganum yfir einhverju prófi. Mér líður kjánalega.

Svona er maður bara. Þó að ég viti að margir í þessum heimi séu að gráta börnin sín, svelta heilu hungri og glíma við aðstæður sem ég get ekki einu sinni ímyndað mér.. þá næ ég samt ekki að gera vandamálið mitt eins lítið og það raunverulega er.
Ekki misskilja mig.. ég veit alveg að það er gott að hafa smá stress í sér fyrir próf en ég er að tala um að mikla fyrir sér hlut sem er ekki vandamál.
Photobucket - Video and Image Hosting
Við erum svo lítil..
Litlu vandamálin okkar eru örsmá og merkingarlaus.
Ég vona að einhver skilji um hvað ég er að tala.
Ég held að ég fari bara að fá mér ostapopp og kristal+.
Photobucket - Video and Image Hosting

Monday, May 01, 2006

Ljúfa lífið lærdómslífið

Ljúf lærdómslaus afmælishelgi að baki með nautalundum, Palin og frábærum gjöfum.
Nú tekur við stjórnsýsluréttur og ugly fruit. Ég elska þann ávöxt! Því ljótari sem þeir eru að utan því sætari og betri eru þeir að innan. Ég valdi einn áðan sem er ógeðsgulur með brúnum blettum og allur krumpaður og mjúkur. Ég á því von á góðu eftir hádegismatinn. Jammí!

Annars þá eru bara 10 dagar í frelsi, regnboga, fiðrildi og hvolpa aka próflok. Það verður yndislegt!

Hilsen!