Monday, December 19, 2005

.. bara tveir dagar eftir af prófum!

Ég var að taka saman myndirnar frá Íran og ætlaði að setja þær á netið með einhverju sniðugu forriti en þar sem ég er tölvufötluð þá kann ég ekki að setja inn nema eina mynd í einu og það tekur samt korter! Ein mynd.. korter... Mér endist ekki ævin í þetta verk! Ég verð víst að bíða þar til Jens kemur heim. Eftir að hafa verið að grúska í þessum myndum langar mig svo að deila þeim með ykkur því eins og þið flest vitið þá urðum við Jensi ástfangin af þessu landi, fegurð þess og yndislega fólkinu sem býr þar. Því ætla ég að setja nokkrar myndir inn ykkur til yndisauka sem eruð enn í prófarugli eins og ég. Hinir geta átt sig og sitt útsofelsi.

Image hosted by Photobucket.com
Útsýnið af svölunum okkar á hótelinu í Bandar-e-Bushehr sem er lítill bær við Persaflóann. Þennan dag var 43gráðu hiti og 100%raki og við hlupum á milli loftkælinga(ég í kuflinum að sjálfssögðu).

Image hosted by Photobucket.com
Allt sem þið hafið heyrt um sólsetur við Persaflóann er satt. Þetta var ótrúlegt.

Image hosted by Photobucket.com
Eyðimerkurborgin Yazd. Sú mest töfrandi borg sem ég get ímyndað mér. Gamli hluti borgarinnar er byggður úr leir og þröngar göturnar, sandurinn, markaðarnir, vindturnarnir og stemmningin er eins og að detta inn í Þúsund og eina nótt. Hótelið okkar var í miðjum ranghölunum og hét Silk road hotel en það hefur einmitt eins og nafnið bendir til verið notað af silkileiðarförum í mörg hundruð ár og ævintýralegt eftir því. Ætlum einhvern tíma að fara aftur og vera þar í margar vikur. Ólýsanlegt.

Image hosted by Photobucket.com
Sólsetur í Yazd. Tekið ofan á þaki heimilis manns sem við kynntumst þarna og var teppasali. Hægt var að stökkva á milli þaka eins og ekkert væri og var það töluvert fljótlegra og mikið notað af krökkum og köttum.

Image hosted by Photobucket.com
Image hosted by Photobucket.com
Basarinn í Shiraz. Brjálað að gera og fólk kaupir inn þarna bara eins og við gerum í Hagkaup. Önnur hver búð selur persnesk teppi á verði sem Íslendingar missa andlitið yfir.

Image hosted by Photobucket.com
Grafhýsi stofnanda og konunga Persíu. Að vera þarna aleinn í þögninni (ég er þarna í kuflinum neðst á myndinni í miðjunni) lét manni líða eins og hluta af einhverju sem ekki er svo auðvelt að skilja.

Image hosted by Photobucket.com
Við röltum ein um einar merkustu fornminjar heimsins, Persepolis.

Image hosted by Photobucket.com
Útsýni yfir Esfahan og mosku þar sem á að vera ein fallegasta moska í heimi.

Image hosted by Photobucket.com
Brúin í Esfahan. Ótrúlega falleg. Ef þið lítið undir brúna þá er á stólpunum lítið kaffihús þar sem hægt var að fá sér kaffi og kökur í kílóavís og svo auðvitað vatnspípur. Þarna var alltaf mikið um að vera, fjölskyldur á röltinu með börnin sín, fólk á stefnumótum og gamlir menn að rífast. Við vorum einu túristarnir þarna eins og hvar sem við komum en fólk var vægast sagt vingjarnlegt og gerðu allt sem þau gátu fyrir okkur og fannst við agalega spennandi.

Image hosted by Photobucket.com
Moska í Esfahan á öðru stærsta torgi í heimi sem notað var eitt sinn fyrir pólóleik en það fundu Íranar upp. Torgið og moskan er eins og annað fallega upplýst á kvöldin.

Image hosted by Photobucket.com
Flestar moskurnar nema þær sem keisarinn vildi láta flýta, eru handútskornar og þessu munstri púslað saman. Það er svo yfirþyrmandi að skoða þessa fegurð að maður verður eiginlega að hugsa um alla vinnuna sem hefur farið í þetta.

Image hosted by Photobucket.com
Bandaríska sendiráðið í Tehran þar sem gíslatakan fór fram. Á því eru ýmsar myndir svipaðar þessari (frelsisstyttan með hauskúpu í stað höfuðs og andlits) og annað sem erfitt er að ná myndum af því það eru mannaðir varðturnar í garðinum og þeim líkar víst illa þegar túristar taka myndir og regla númer eitt er að gera aldrei neitt sem mönnum vopnuðum hríðskotabyssum líkar illa. Við náðum þessari mynd á meðan varðmaðurinn leit fyrir hornið en eins og sést var þetta frekar stressandi.

Image hosted by Photobucket.com
Image hosted by Photobucket.com
Image hosted by Photobucket.com
Mashuleh.. lítið þorp í fjöllunum við Kaspíahafið. Það liggur svo bratt í fjallinu að göturnar þurfa að vera ofan á húsunum fyrir neðan eins og sést á neðstu myndinni. Þarna keyptum við nammið sem þið fenguð mörg að smakka.

Image hosted by Photobucket.com
Þessi gamla kona skildi ekkert í okkur en seldi okkur sokka sem hún prjónaði.

Image hosted by Photobucket.com
Við sigldum á hraðbát um Kaspíahafið (ekki allt þó) og skemmtum okkur vel eins og sést. Þarna var ég með risavatnalilju á höfðinu og hún var næstum því búin að láta mig takast á loft. Það var gaman. Svo keyptum við styrjuhrogn.

Image hosted by Photobucket.com
Image hosted by Photobucket.com
Fólkið í Íran er yndislegt og í þessari ferð eignuðumst við marga vini sem við skrifumst á við í hressilegum tölvupóstum.


Þetta er orðin alveg hrikaleg færsla og mál til komið að bækurnar fái athygli aftur en eins og þið kannski finnið þá mælum við Jens eindregið með ferðalögum um Íran og blásum á raddir fordóma. Það gilda bara sömu reglur um ferðalög þangað og til annarra framandi landa, að fara varlega og virða siði landsins. Það er að vissu leyti erfiðara í Íran vegna laga um klæðnað kvenna en ekkert til að draga kjark úr kvenferðalöngum.. Kaupið bara nógu léttan kufl og gerið gott úr þessu. :)

Svo er það bara stóra reisan eftir einn og hálfan mánuð haaaaa??

Tuesday, December 13, 2005

Aðeins 8 dagar í ..

Image hosted by Photobucket.com

Image hosted by Photobucket.com

og

Image hosted by Photobucket.com

En þangað til.. samninga- og stjórnsýsluréttur!
*yfirlið*

Sunday, December 11, 2005

Það les greinilega enginn það sem ég skrifa!

Þið verðið að lesa textann krakkar! Fólk er allt í einu farið að falla fyrir þessu prófi sem ég gerði hér fyrir neðan og síðasta klukkutímann hef ég fengið yfir 30 pósta frá öllum mögulegum aðilum og í heild eru svörin hátt í 100!
Elsku fólk.. Þetta er einhver hrekkur sem gengur um internetið og ég féll fyrir og fannst sniðugur en ég ætlaði í alvörunni ekki að láta þetta heppnast svona vel og hélt að það nægði að skrifa undir linknum að þetta væri gabb en svo var víst ekki! Ég bið alla afsökunar á þeim sálarlegu vandræðum sem þetta hefur kostað þá svona í prófatörninni.
Þeir sem sendu mér póst eftir klukkan 3 í dag þurfa samt ekkert að óttast uppljóstranir eða annað því ég eyddi þessu prófi og upplýsingunum sem því fylgdi án þess svo mikið að opna skrár forvitnislegustu einstaklinganna. Enginn, og þá ekki einu sinni ég, mun því vita um ástkonur/menn yðar. Jens var mjög ósamvinnuþýtt vitni að þessari eyðingu (hann vildi skoða allt og hefja mútustarfsemi) og getur fúllyndislega staðfest það að ekkert komst út.
Ástæðan fyrir þessari miklu eyðingu er að ég veit alveg hversu óþægilegt svona getur verið og ég nenni ekki að missa svefn yfir þessu með samviskubiti yfir líklegri angist mennta- og háskólanema. Ég er svo meyr krakkar.. þið vitið það!

Við skulum bara segja að sé fegin að hafa ekki sett inn prófið sem MannvonskuJensi stakk uppá.. þá væru lögfræðingar sennilega komnir á dyrnar hjá mér!
Image hosted by Photobucket.com
Kveðja, Erna platari og illmenni

Ég hlakka svo til jólanna!

Það er aldeilis farið að styttast í þetta jólastúss mér til mikillar gleði. Hinsvegar á ég enn eftir 2 próf sem ég á erfitt með að læra fyrir.. Einbeitingin kláraðist alveg yfir þessu skaðabótaréttarprófi.
Eeeeen verð að rífa mig upp á rassinum og lesa um ógildingarástæður svo ég verði með góða samvisku um jólin.
Ég og Jens mældumst 98% líkleg til að "hook up" en hins vegar mældumst við Þorbjörg ekki nema 12%.. Því miður Þorbjörg en þú getur prófað að setja Ragga inn í staðinn ;)
jæja.. back to the books..

*uppfært síðar sama dag*
Jæja.. það féll enginn fyrir þessu prófi mínu nema Elín og ég veit hvort eð er allt um hana. Þið eruð bara leiðinleg og hafiði það! ;)
Má maður ekkert skemmta sér í prófum.. *dæs*

Monday, December 05, 2005

Grimmd

Hugsið ykkur. Hjón í göngutúr fundu fyrir tilviljun nokkra agnarsmáa hvolpa við Hvaleyrarvatn, nær dauða en lífi af hungri og kulda. Einhver hefur ekki nennt að reyna að koma þeim út eða svæfa þá hjá dýralækni og valdi frekar þessa leið. Maður verður svo reiður þegar maður heyrir svona að mig langar helst að hella mér í CSI-störf og finna þessa aumingja og gefa þeim það sem þeir eiga skilið.
Í sumar fundust líka í flæðarmáli þessa sama vatns hvolpar í poka sem hafði verið hent í vatnið til að drukkna. Hvernig tekur fólk þessa ákvörðun? Hvernig fólk tekur yfirhöfuð þessar ákvarðanir? Hver er svo kaldur að hann hendir 5 hvolpum í poka, leiðir hjá sér allt væl og vinahót litlu greyjanna sem ekki vita hvað bíður, sleppir pokanum í vatnið og fer síðan heim að horfa á fréttirnar? Hvað hugsar slík manneskja á leiðinni heim?
Image hosted by Photobucket.com
Það undarlegasta og versta við þetta allt saman er að þetta er algengt. Svo algengt að ég skil það ekki. Einu sinni fann bróðir mömmu kettlinga í poka í ruslatunnu á Akureyri. Þeir voru allir dánir nema einn og amma tók hann að sér mér til mikillar gleði! Svo mun ég aldrei gleyma schefferhundinum sem fannst í Reykjavíkurhöfn með stein bundinn um hálsinn. :(

Mér finnst vera ástæða að tilkynna það hér að ef einhver hefur í huga að yfirgefa/drekkja nokkrum hvolpum/hundum/kettlingum/naggrísum/músum eða hverju sem er einhvern tíma í framtíðinni af því hann nennir ekki að reyna að gefa þá eða svæfa, þá bendi ég þeim hinum sama á að skilja þá frekar eftir fyrir framan íbúð 1203, Blásölum 22 Kópavogi og ég skal taka við þeim no questions asked.

Helvítis aumingjar.

Friday, December 02, 2005

Föstudagur maður!

Það er svo stórkostlega skrýtið að þó ég sé að læra á fullu núna alla daga og þeir renni saman í eina langa lærdómstörn með stöku simpsons- og svefnhléi, þá finnst mér samt alltaf notalegt að vera til á föstudögum... Þrátt fyrir að hann sé nákvæmlega eins og allir aðrir dagar og þar með taldir sunnudagar sem fara ósegjanlega í taugarnar á mér, þá líður mér föstudagslega.
Image hosted by Photobucket.com
Frank Sinatra mætti syngja mig í svefn anytime. Og þá meina ég syngja, ildýrin ykkar!