Tuesday, January 31, 2006

Úff hvað er mikið að gera hjá manni þessa dagana! Er að skemmta mér konunglega alla daga í stofukynningu upp í Háskóla fram að kaffi og þá taka við fundir, vesen og tilheyrandi langt fram á kvöld en svoooo...eldsnemma á föstudagsmorgun hefjum við Jensi ferð okkar hinum megin á hnöttinn. Einhvern tíma áður en sú stund rennur upp þarf ég líka að gera huggulegt í Blásvítunni, þrífa Císó og flytja hann og hafurtask til Guðföðursins, pakka og kveðja fjölskyldu og vini + það að vera æðisleg í kosningabaráttunni. *thumbs up*
Þrátt fyrir alla þessa hamingju er þó tvennt sem er að pirra mig þessa dagana.. tvær bólur á hökunni á mér!!! Nú fæ ég blessunarlega ekki oft bólur ( 7 9 13 ) og af hverju í veröldinni þurftu þessar tvær stóru, fallegu, glansandi rauðu bólur að koma þegar ég er í eilífum myndatökum og að kynna mig í öllum kúrsum í háskólanum?? Þetta er sko ekki sanngjarnt. Ég hef verið að reyna að fela þær með ýmsum ráðum en þær eru lúmskar og brjótast í gegnum hvaða meik og krem sem er og verða svo í hefniskyni fyrir tilraunina allar þurrar í kringum "aðalbólusvæðið" þannig að ég verð eins og holdsveikisjúklingur í framan. Ekki það að ég hafi eitthvað á móti holdsveikisjúklingum... Ég ætla ekki að tala meira um bólur né holdsveika svo þið getið haldið áfram að lesa.

Ég kvaddi Elínu Lóu og Snabba á laugardaginn en þau leggja einmitt upp í ferð sína um S-Ameríku í dag og ég óska þeim enn og aftur góðrar ferðar og skemmtunar og benda þeim á að gera aldrei neitt sem Gunnar Eyþórsson myndi gera!

Mig langar að senda samúðarkveðjur til Þorbjargar og fjölskyldu en Matti, hundurinn hennar, dó í fyrradag eftir að hafa verið mikið veikur. Hann var ótrúlegur og einn af gáfuðustu hundum sem ég veit um. Hann skildi alltaf hvað maður var að tala um (mat, göngutúr, hann sjálfan), rosalegur smalahundur sem gat smalað saman hverju sem er og ég sver að hann talaði mannamál stundum þegar hann vældi. Ég mun aldrei gleyma því þegar ég og Þorbjörg vorum að borða köku við eldhúsborðið og hann mátti ekki koma og átti að vera í þvottahúsinu en hann skreið á maganum til okkar yfir stofuna og þröskulda (ótrúlega lúmskur) og ætlaði sér að fá köku.. sem hann fékk auðvitað að lokum. Það verður mjög skrýtið að fara heim til Þorbjargar núna og hafa engan Matta á svæðinu til að knúsa. :(

Þetta endaði með því að verða stór og mikil færsla full af mismunandi efni sem er kannski viðeigandi því ég mun líklegast ekki skrifa hér aftur fyrr en í lok febrúar eða byrjun mars.
Knús til ykkar allra og svo líka innilegar illfygliskveðjur til Dossu sem mun að líkindum eignast litla stúlku á næstu dögum eða á meðan við verðum í Singapore eða Ástralíu. :)

Monday, January 23, 2006

X - A og önnur mál!

Jæja eftir 2 vikur verð ég rétt ólent í Sydney en það er margt sem þarf að gerast áður en ég yfirgef klakann. Kosningar til stúdenta- og háskólaráðs verða haldnar 8.-9.febrúar og er ég þar í fyrsta sæti á lista Vöku til Háskólaráðs. Ég ætlast að sjálfssögðu til þess að þið vinir mínir styðjið mig og félaga mína til sigurs og hvetjið alla til að velja rétt! :)
Hér má skoða betur frambjóðendur Vöku 2006
Image hosting by Photobucket
Áfram Vaka!

Við fórum svo í frambjóðendaferðina í gær og það var alveg frábært í alla staði. Óhugnalega mikið áfengi var drukkið bæði í leikjum, keppnum og almennu stuði, fjöldamet var slegið í pottinum og bjór-gufunni, sungið og spilað á gítar til morguns, sumir kysstust og aðrir sofnuðu undir blautu handklæði eftir misheppnað sængurrán. Ég vaknaði blessunarlega laus við þynnku um 12 leytið með hárið í allar áttir og óupplýst handmeiðsl. Hægri olnboginn er stokkbólginn, blár og marinn og ég get ekki beygt hendina svo fullnægjandi þyki og ég hef í raun ekki hugmynd um hvernig þetta gerðist. Líklegast þykir mér þó að þetta hafi gerst þegar ég stökk með tilþrifum ofan í heita pottinn með skemmtilegum afleiðingum.
Image hosting by Photobucket
Image hosting by Photobucket
Image hosting by Photobucket
Image hosting by Photobucket

Næst á dagskrá er svo póker á miðvikudagskvöld, Rokk-Vaka á fimmtudagskvöld og tryllt partý á föstudagskvöldið.

Wednesday, January 11, 2006

Áfram áfram..

Tíminn flýgur. Nú er komið ár síðan við Jens hættum við allar áætlanir um að flytja í miðbæinn þegar við duttum niður á Blásvítuna og vildum ekkert annað! Við keyptum hana svo daginn eftir og höfum búið hér nú í tæpt ár. Sambúðin gengur framar öllum vonum og engin tannkremstúpu- eða klósettsetuvandamál hafa komið upp enn! Okkur finnst mjög notalegt að eiga lítið hreiður við tvö ein og ekki sakar að þetta hreiður er úr fínustu greinum og með útsýni sem enn gefur manni gæsahúð niður bakið. Endalaus rómantík!

Stuttu eftir að við fluttum inn í febrúar 2005 fengum við okkur ofurlítinn naggrísaunga þar sem ég gat ekki ímyndað mér að hafa engann til að hugsa um (fyrir utan Jens auðvitað). Grísinn þann nefndum við Cíceró því hann tuðaði stanslaust allan daginn í búrinu sínu. Nú í dag er Císó orðinn 1 árs og alls ekki lítill lengur heldur feitur og frekur og á stærð við lítinn kött. Við erum búin að kenna honum ýmis trikk eins og að betla mat á afturfótunum, öskra þegar hann vill e-ð og ekki pissa þegar það er kúrutími. Í tilefni afmælis hans ætla ég að birta nokkrar myndir af Císónum sjálfum.
Image hosted by Photobucket.com
Image hosted by Photobucket.com
Image hosted by Photobucket.com
Búinn að koma sér vel fyrir með allt til sýnis..! ;)

Wednesday, January 04, 2006

Gleðileg jól og nýtt ár!

Jólin eru besti tími ársins án efa. Ég er búin að hafa það svo agalega gott þessi jól að það verður mikið áfall að detta aftur inn í hversdagsleikann. Ég hef sofið mikið og kúrt, lesið, borðað góðan mat, konfekt og drukkið heitt súkkulaði í lítravís, horft á jólamyndir og aðrar myndir, spilað heilu næturnar og fengið mér svo nokkrum sinnum í aðra tá með góðu fólki og fjölskyldu. Ég er mjög fegin þeirri ákvörðun minni að vinna ekki um jólin og mín ofhlöðnu batterí eiga eftir að nýtast vel þetta vorið.
Image hosted by Photobucket.com
Jólalegt í Blásölunum.

Það er svo ekki hægt að segja að hversdagsleikinn sem nú tekur við sé grámyglulegur eða leiðinlegur. Fyrst á dagskrá eru kosningar til stúdentaráðs Háskóla Íslands þar sem ég mun styðja Vöku af mikilli hörku og svo 3.febrúar nk. tekur við ævintýraferð yfir hnöttinn til Nýja Sjálands. Ég er ekki að kvarta og lífið er stórkostlegt! :)