Mooooning og gleðilega páska!
Við erum komin aftur í kuldann og bækurnar og nú hefst mikið kapphlaup við tímann að ná að lesa allt um úrskurði óbyggðanefndar, þinglýsingar og veðsetningar fyrir próf! Jibbý og húrra!! Þetta er samt skárra en það hljómar... held ég. Ég kemst að því fljótlega.
Það var æææðislegt á Spáni og ég var varla lent þegar útþráin blossaði upp aftur. Ég held ég sé orðin eitthvað lasin.. ferðalasin.. hugsa ekki um neitt annað en ferðalög og skipulagningu mikilla langra ferða um allan hnött. Þeir sem tala við mig fá einmitt að kynnast því að ég hef ekkert að segja nema um vegabréfsáritanir (eins fyndið og það er þá eru Íslendingar, Maldiveseyjaskeggjar og Sambíumenn einu þjóðirnar sem ekki þurfa vegabréfsáritanir til Pakistan), bólusetningar, vatnshreinsitöflur og slíkt. Allir auðþreyttir á þannig tali skulu halda sig úr kallfjarlægð.
Svo horfum við Jens á endalausar heimildamyndir og þætti um ferðir og lönd og erum í þessari viku að klára næstsíðustu ferðaþáttaseríu Michael Palin (sem ég er laumuástfangin af by the way) sem hefur ferðast um allan heim okkur til ánægju og gagns.
Jens kvelst og þjáist af nákvæmlega sömu ferðaþörf svo það stefnir allt í að eitthvað verði gert í málunum.
En aftur að Spáni.. Þetta var rosa notaleg ferð og við slöppuðum bara af í sólinni með vínglas og Andrésblöð (þinglýsingar hvað??), fórum í golf og á veitingastaði. Muy bien eins og þeir segja..
Dagur gerðist svo yndislega frábær að bjóðast til að lána okkur barnið sitt (myndavélina flottu) til að nota í ferðinni og auðvitað tókum við því fagnandi. Ég var þvílíkt að æfa mig að taka myndir og Jensi kenndi mér mikið.. eins og hvernig á að taka myndir mjög hratt og hvernig á að hafa ljósopið opið stutt í einu (til að ná dropum og svona). Nú langar mig geðveikt í svona myndavél en það verður að bíða betri fjárhagstíma. TAKK DAGUR FYRIR LÁNIÐ! :)
Hér má sjá afrakstur æfinga minna:

Brynja á loftinu á leið í ískalda sundlaug

Jens að lenda í sundlauginni

Það er nú ekkert annað flott við þessa mynd nema droparnir.. ég náði þeim loksins eftir að Jens hafði kennt mér að stilla á 6 og svo mátti ekki blikka 22 og svo kom 13.. úff.. ;)

Marta með Prada-sólgleraugun

Speglun í sundlauginni

Brynja

Jens í strandtennis
Á leiðinni heim frá Spánó þurftum við að millilenda á Gatwick og gista eina nótt á 16.aldar sveitarsetri sem búið var að breyta í hótel og var rétt við flugvöllinn..
Mér leið svo undarlega þarna og sagði það við Jens en gat ekki útskýrt hvernig og get ekki enn.. Við fórum og fengum okkur að borða á veitingastaðnum og höfðum það notalegt áður en við þurftum að fara í bælið því flugið okkar var eldsnemma um morguninn.
Ég svaf ekkert.. Mér fannst alltaf eins og einhver væri að draga sængina af mér og hrökk upp! Ég reyndi svo að sofna bara aftur og hlægja að ímyndunarveikinni í mér en ég sver það var eitthvað skrýtið í gangi. Ég vaknaði aftur og aftur við að sængin rann af mér eins og einhver hefði togað í hana og svo þegar ég settist upp í eitt skiptið fannst mér ég sjá eitthvað.. skugga eða eitthvað beint við rúmið (guð hvað maður er bilaður). Ég sagði sjálfri mér að þetta væri bara burðarbitinn eða eitthvað og lagðist aftur en þegar ég settist aftur upp til að sannfæra mig enn frekar var enginn skuggi. Þá fríkaði ég út og vakti Jens sem var frekar skeptískur á þetta. Ég sofnaði aðeins eftir samtal við Jens um hversu heimskulegt þetta væri en vaknaði aftur við undarlegt hljóð sem líktist helst lágu hvæsi. Ég lá svo bara og hlustaði á þetta hljóð og reyndi að greina hvort það væri að segja eitthvað (ég tek fram að ég var mjöööög syfjuð þarna). LOKSINS hringdi vekjaraklukkan kl.4 og við fórum út á völl. Í rútunni á leiðinni út á völl sagði ég Jens frá þessari hræðilegu nótt og frá hljóðinu. Þá kom í ljós að hann hafði heyrt það líka og haldið að það kæmi frá sjónvarpinu. Þetta var samt ótrúlega skerí og sérstaklega (og sennilega vegna þess) þar sem þetta var eldgamalt sveitasetur.
Guð minn hvað þetta varð löng færsla.. svona verður þetta ef maður bloggar ekki nema á nokkra vikna fresti.
Weeeeell.. ætla að klára páskaeggið mitt og lesa um skilgreiningu fasteignar.
Ykkar Erna
Ferða-, Mynda- og Draugamálaráðherra